Saga karlakórsins

Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps stofnaður 1925

Úrdráttur úr bókinni " Tónar í tómstundum sem gefin var út í tilefni 40 ára afmælis kórsins árið 1965.

 

Stofnun kórs

 

Svo segir Guðmundur Jósafatsson að í göngum á Eyvindarstaðarheiði 1924, hafi eina nóttina við Ströngukvísl verið fastmælum bundið að stofna karlakór í Bólstaðarhlíðarhreppi og talað um að skipa röddum líkt og síðar varð. Mun Gísli á Eyvindarstöðum hafa verið mesti hvatamaður þess. Ekkert varð þó úr framkvæmd þessa máls fyrr en undir næstu áramót. En 28.des þetta ár var skemmtisamkoma haldin að Bólstaðarhlíð. Kom þar fjölmenni og var mönnum létt í skapi. Það gerðist er leið á kvöldið að nokkrir þeirra manna er sungu mest og skröfuðu fyrrnefnda gangnanótt við Ströngukvísl drógu sig út úr og héldu með sér fund á norðurloftinu í Bólstaðarhlíð. Kvaddi Gísli á Eyvindarstöðum þá til þess. Var þarna ákveðið að stofna karlakór og tvöfaldan kvartett, og söngmenn voru þessir:

 

1 tenór: Ágúst Andrésson lausamaður Brandsstöðum og Gísli Jónsson bóndasonur Eyvindarstöðum

2 tenór: Guðmundur Sigfússon Bóndasonur Bollastöðum og Tryggvi Jónasson bóndi Finnstungu

1 bassi: Guðmann Hjálmarsson Lausamaður Ytra-Tungukoti og Stefán Sigurðsson bóndi Gili

2 bassi: Hannes Ólafsson bóndi Eiríksstöðum og Sigfús Eyjólfsson bóndi Bollastöðum

 

Söngstjóri var ráðinn Gísli Jónsson á Eyvindastöðum. Mun hann þó aðeins hafa lofað að gegna starfinu þar til að Þorsteinn bróðir hans kæmi heim af Hólaskóla um vorið.  Skyldi hann þá taka taumana en Gísli syngja áfram fyrsta tenór með Ágústi.

 

Ekki var þó kosin formleg stjórn fyrr en löngu síðar. Mun söngstjóri í fyrstu hafa verið næsta einvaldur svo lengi sem að kórbræðurnir væru ekki almennt andvígir tillögum hans og framkvæmd. Þótt lagið væri óspart tekið þegar þessi hvítvoðungur var þarna í heiminn borinn fóru ekki miklar sögur af fæðingu hans né frumbernsku. En um þá sem vöktu hann til lífsins og veittu honum síðan uppeldi og þroska , á það við sem að Bólu-Hjálmar kvað við stofnun jarðabótafélagsins í þessarri sömu sveit allt að því þremur aldafjórðungum áður:

 

Mikið sá vann

Sem vonar-ísinn

Braut með súrum sveita

Hægra mun síðar

Að halda þíðri

Heilla veiðivök

 

Þá lind er þarna spratt fram hefur ekki lagt síðan.

 

 

 

Flettingar í dag: 165
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 114
Gestir í gær: 24
Samtals flettingar: 251836
Samtals gestir: 54297
Tölur uppfærðar: 20.4.2018 23:34:55